Framlenging á samstarfi við Icelandic Glacial

Framlenging á samstarfi við Icelandic Glacial
04. mars 2021
Icelandic Water Holdings, eigandi vörumerkisins Icelandic Glacial, og Coca-Cola European Partners á Íslandi ehf (Coca-Cola á Íslandi) skrifuðu undir áframhaldandi samstarfssamning um dreifingu vara Icelandic Glacial hér á landi og nær samningurinn nú einnig yfir nýjar vörur Icelandic Glacial sem verður dreift samhliða vörutegundum Coca-Cola á Íslandi.

Icelandic Glacial er einstakt náttúrulegt lindarvatn sem tekið er úr uppsprettu lindarvatns í Ölfusi sem á uppruna sinn fyrir meira en 5000 árum og er verndað gegn mengun með hraunbreiðum, náttúrulegum varnarvegg náttúrunnar. Lindin framleiðir vatn sem er svo hreint að engu er bætt út í vatnið eða tekið úr því. Vatnið frá Icelandic Glacial er þess vegna einstakt því það inniheldur lítið af steinefnum og sýrustigið er 8,4pH af náttúrunnar hendi. Í mestu mögulegu framleiðslu fyrirtækisins er tekið sem samsvarar 1% af heildarvatnsstraumi Ölfus bergvatnslindarinnar, sem annars rynni til sjávar. 

„Icelandic Glacial er í miklum vexti á alþjóðavettvangi en heimamarkaðurinn er okkur ekki síður mikilvægur og erum við ánægð með áframhaldandi samstarf okkar við Coca-Cola á Íslandi. Það eru spennandi tímar framundan en von er á nýjum vörum frá okkur á næstu mánuðum sem við hlökkum til að kynna,“ sagði Jón Ólafsson, stofnandi og stjórnarformaður Icelandic Glacial. 

Vöruframboð Icelandic Glacial er fjölbreytt og fæst lindarvatnið úr Ölfusi í plastflöskum, í gleri með og án kolsýru, og kolsýrt í plastflöskum með og án bragðefna. Nýjar vörur verða kynntar til leiks á næstunni þegar framleiðsla hefst á kolsýrðu vatni með og án bragðefna í dósum, kolsýrðu vatni með ferskum bragðtegundum í gleri og Bag in Box sem eru 5L og 20L vatnsbelgir í kassa sem henta vel í ísskápa eða á skrifstofur.

„Við hjá Coca-Cola á Íslandi leggjum áherslu á að bjóða viðskiptavinum okkar og neytendum fjölbreytt úrval hágæða vatnsdrykkja fyrir mismunandi markhópa. Vörumerkið Icelandic Glacial hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir gæði, hreinleika og útlit umbúða og er framleitt í verksmiðju sem er vottuð kolefnishlutlaus. Það fellur vel að sjálfbærnistefnu okkar og markmiðum í loftslagsmálum og fellur einnig vel að þörfum viðskiptavina okkar,“ segir Einar Snorri Magnússon forstjóri Coca-Cola European Partners á Íslandi. 

Verksmiðja Icelandic Water Holdings í Ölfusi býr yfir þeirri sérstöðu að teljast vera ein af umhverfisvænustu átöppunarverksmiðjum í heiminum og byggist það mat á því að eingöngu er notuð endurnýtanleg jarðvarmaorka. Icelandic Water Holdings er fyrsta drykkjavörufyrirtækið sem hefur fengið CarbonNeutral® viðurkenningu en öll starfsemi fyrirtækisins er kolefnisjöfnuð. Aðeins er notuð 100% umhverfisvæn orka við framleiðsluna á hinu einstaka flöskuvatni Icelandic Glacial sem dreift er til kröfuharðra neytenda um allan heim, án þess að skilja eftir sig neikvætt kolefnisfótspor.