Heiður að fá að styðja við Slysavarnafélagið Landsbjörg

Heiður að fá að styðja við Slysavarnafélagið Landsbjörg
18. desember 2020

„Heiður að fá að styðja við Slysavarnafélagið Landsbjörg“

Landsbjörg og Coca-Cola á Íslandi skrifa undir samkomulag um stuðning

Í dag skrifuðu Slysavarnafélagið Landsbjörg og Coca-Cola á Íslandi undir samkomulag um stuðning til tveggja ára.

Mikið hefur mætt á björgunarsveitum unanfarin ár enda sinna þær að meðaltali 1.500 aðstoðarbeiðnum á ári. Sveitirnar eru skipaðar yfir 4.500 vel þjálfuðum sjálfboðaliðum um allt land og eru þeir klárir að bregðast við kalli dag og nótt, allt árið um kring. 

Samfélagið treystir á björgunarsveitirnar og þær treysta á stuðning frá atvinnulífinu og fólkinu í landinu. Hins vegar hefur faraldur kórónaveirunnar skilið eftir skarð í fjáröflun Slysavarnafélagsins Landsbjargar og því telur Coca-Cola á Íslandi mikilvægara en nokkru sinni fyrr að leggja björgunarsveitunum lið og styðja við það frábæra starf sem þær veita. 

Björgunarstörf og ungliðastarf

„Við erum þakklát þessum öfluga stuðningi sem mun renna til neyðarhjálpar okkar og er einnig hugsaður fyrir ungliðastarf félagsins þar sem mikill fjöldi ungs fólks hefur fundið athafnaþrá sinni farveg til heilbrigðra, spennandi og uppbyggilegra starfa,“ segir Róbert H. Hnífsdal, sölustjóri hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg. 

„Unglingadeildirnar starfa í tengslum við björgunarsveitir félagsins víða um land og þar kynnast unglingarnir starfi björgunarsveita og slysavarnadeilda. Þau sækja gagnleg námskeið og fá tækifæri til að ferðast um landið og öðlast í leiðinni innsýn í hvernig ber að varast þær hættur sem íslensk náttúra býr yfir. Í unglingastarfinu er svo að finna mikið af björgunarsveitafólki framtíðarinnar“.

Björgunarsveitirnar eru ómetanlegar

„Björgunarsveitirnar eru hjartað í landinu og þar endurspeglast samkenndin, krafturinn og hugrekkið sem í okkur býr. Það er okkur því sannur heiður að styðja við Landsbjörg,“ segir Einar Snorri Magnússon, forstjóri Coca-Cola á Íslandi en hann starfaði um árabil samhliða Róberti í björgunarsveitum á Vestfjörðum, og þekkir því vel hversu mikilvæg starfsemi þeirra er í samfélaginu. 

Einar segir að stuðningurinn falli vel að sjálfbærnimarkmiðum Coca-Cola á Íslandi um stuðning við samfélagið, þar sem fyrirtækið hefur einsett sér að styðja við verkefni sem hjálpa ungu fólki að efla starfshæfni sína og sjálfstraust. 

Þakkir til allra sjálfboðaliðanna

„Það er erfitt að setja tölu á hversu mörgum björgunarsveitirnar okkar hafa hjálpað eða hversu mörgum lífum þær hafa bjargað. Við höfum öll okkar sögu eða tengsl við björgunarsveitirnar. Sjálfboðaliðastarfið getur verið bæði gefandi og skemmtilegt en að sama skapi þarf fólk að vera viðbúið að standa keikt frammi fyrir einhverjum erfiðustu aðstæðum sem við getum ímyndað okkur. Ég vil því einnig nota þetta tækifæri til að þakka öllum þeim ótrúlegu sjálfboðaliðum sem gera björgunarstarf á Íslandi mögulegt,“ segir Einar Snorri. 
 

Meðfylgjandi er mynd af því þegar skrifað var undir samninginn í gegnum fjarfund fyrr í dag.