Coca-Cola á Íslandi fagnar styttingu vinnuvikunnar

Coca-Cola á Íslandi fagnar styttingu vinnuvikunnar
05. desember 2019

Coca-Cola á Íslandi fagnar styttingu vinnuvikunnar

Vinnuvikan styttist samtímis hjá öllu starfsfólki hjá Coca-Cola á Íslandi, óháð stéttarfélagi.

Samkvæmt Lífskjarasamningnum milli SA og VR/LÍV verður vinnuvikan stytt frá 1. janúar næstkomandi. Hjá Coca-Cola European Partners á Íslandi er starfað eftir virkri jafnréttisstefnu og því var ákveðið að stytting vinnuvikunnar muni gilda um allt starfsfólk fyrirtækisins, óháð stéttarfélögum.

Coca-Cola á  Íslandi fagnar því að stuðla að velferð starfsfólks með styttingu vinnuvikunnar, enda hagur fyrirtækisins og starfsfólksins að draga úr streitu sem myndast þegar fólk reynir að samræma kröfur vinnu og einkalífs. Tilgangur styttingar er að stuðla að jafnvægi milli einkalífs og vinnu í daglegu lífi og er starfsfólk hvatt til að nýta frítímann jafnt og þétt. 
Starfsfólk Coca-Cola á Íslandi myndaði sérstaka nefnd til að fara yfir útfærslu á styttingu vinnuvikunnar en þar var tekin einróma ákvörðun um að styttingin skyldi ná til alls starfsfólks fyrirtækisins, enda vinnur fyrirtækið eftir virkri jafnréttisstefnu og lítur svo á að ekki skuli gera upp á milli fólks. Útfærslan á styttingu verður með mismunandi hætti eftir starfsemi deilda til að halda uppi þjónustu við viðskiptavini en unnið að því að vinnutími allra starfsmanna styttist um 3 klst og 15 mínútur á mánuði.

Samkomulag þess efnis er nú þegar frágengið gagnvart VR, BHM og Verkfræðingafélagi Íslands og gildir frá 1. janúar 2020. Verið er að vinna að samkomulagi við Eflingu og iðnaðarmannafélögin um útfærslu á styttingu gagnvart vaktavinnufólki og er stefnt að því að klára samninginn á næstu vikum. 

„Í stað þess að horfa á styttingu vinnuvikunnar sem kostnað þá lítum við svo á að styttingin sé liður í að auka velferð á vinnustað og stuðli að betra jafnvægi milli vinnu og einkalífs. Þar sem jafnrétti á vinnustað er okkur mikilvægt fannst okkur ekki tækt annað en að það sama gengi yfir allt starfsfólk okkar, og yrði innleitt samtímis hjá öllum, óháð hvaða stéttarfélagi það er í. Þannig tryggjum við jafnan rétt okkar starfsfólks best“. Sonja M. Scott, mannauðsstjóri Coca-Cola European Partners á Íslandi.