Samstarf Coca-Cola á Íslandi og Skógræktarinnar

Samstarf Coca-Cola á Íslandi og Skógræktarinnar
25. apríl 2018
Coca-Cola á Íslandi og Skógræktin vinna í sameiningu að plöntun trjáa í  1,5 hektara lands á ári næstu 3 árin í Haukadal í Bláskógabyggð eða samtals 4,5 hektara til loka ársins 2020.  

Samstarf Coca-Cola á Íslandi, áður Vífilfells hf., og Skógræktarinnar um eflingu skógræktar í Haukadal í Bláskógabyggð nær aftur til ársins 1989 og er því að verða 30 ára gamalt. Í Haukadal er 20 hektara reitur með allt að 10 metra háum trjám sem ræktaður hefur verið í því samstarfi og nefnist Coke skógurinn. Í tímans rás hafa orðið sameiningar, nafnabreytingar og eigendaskipti en stuðningur Coca-Cola við skógrækt á Íslandi heldur áfram.

Undirritaður hefur verið nýr samstarfssamningur á milli Skógræktarinnar og Coca-Cola European Partners Ísland ehf. (Coca-Cola á Íslandi) um skógrækt í Haukadal. Á næstu þremur árum er stefnt að því að Coca-Cola á Íslandi fjármagni gróðursetningu á 1,5 hektara svæði á ári næstu 3 árin, eða samtals 4,5 hektara af skógrækt í Haukadal í Bláskógabyggð, á svæði sem áður var rofið land. Skógurinn sjálfur verður eign Skógræktarinnar en kolefnisbindingu skógarins getur Coca-Cola á Íslandi talið fram í sína þágu til 50 ára frá gróðursetningu.

Er þetta samtarf liður í Sjálfbærnistefnu Coca-Cola European Partners sem ber nafnið „Áfram veginn“, en stefnan er í 6 köflum og með 21 tímasettu markmiði til ársins 2025.  Einn kaflinn í sjálfbærni-stefnunni fjallar um loftslagsmál.  Samstarf Coca-Cola á Íslandi og Skógræktarinnar er mótvægisaðerð vegna kolefnisfótspors fyritækisins en fyrirtækið hefur það að markmið að framleiðsla þess hérlendis verði 100% kolefnisjöfnuð innan fárra missera. 

Coca-Cola á Íslandi er aðili að loftslagsyfirlýsingu Festu, samtaka um samfélagsábyrgð fyrirtækja, Reykjavíkurborgar og 103 annarra fyrirtækja á Íslandi um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif með markvissum aðgerðum.  Verkefnið hefur vakið athygli á alþjóðlegum vettvangi og var kynnt á Parísarráðstefnunni um loftslagsmál (COP21) í desember 2015.