Skuldbinding um minni sykur.

Skuldbinding um minni sykur.
25. janúar 2018

Coca-Cola á Íslandi setur sér metnaðarfullar skuldbindingar um sykurnotkun:
10% minni sykur til 2020


Coca-Cola á Íslandi (Coca-Cola European Partners Ísland) kynnti metnaðarfullar skuldbindingar um að draga verulega úr sykurnotkun í vörum sínum á janúarráðstefnu FESTU í dag. Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskt fyrirtæki kynnir slíkar skuldbindingar og aldrei áður hefur verið lagt í jafn metnaðarfullt átak hérlendis um að draga úr sykurnotkun og stuðla að bættri lýðheilsu.

Átakið er margþætt og felur meðal annars í sér:
10% minni sykur í vörulínu Coca-Cola á Íslandi til 2020
Aukinn kraftur settur í vöruþróun á sykurminni eða sykurlausum drykkjum 
Átak í minnkun skammtastærða, m.a. valkostir um minni umbúðir
Aðgengilegri innihaldslýsingar 

„Offita er alþjóðleg áskorun og það er samfélagsleg ábyrgð okkar að minnka neyslu á sykri.  Því skuldbindum við okkur til að draga verulega úr sykurnotkun, þvert á vörulínu okkar, jafnframt því að grípa til annarra aðgerða sem munu hafa áhrif á neyslumynstur fólks. Við erum einn stærsti drykkjarframleiðandinn á íslenskum markaði og það sem við gerum skiptir máli. Við berum mikla ábyrgð sem við tökum alvarlega. Við viljum vera hluti af lausninni en ekki af vandanum,“ segir Carlos Cruz, forstjóri Coca-Cola á Íslandi. Hann bendir á að skuldbindingar fyrirtækisins séu í fullu samræmi við nýja sjálfbærniáætlun CCEP og The Coca-Cola Company, Áfram veginn, en þar eru meðal annars sett fram markmið um að a.m.k. 50% af sölu fyrirtækisins komi frá sykurlausum eða sykurskertum valkostum árið 2025.

Koma til móts við kröfur neytenda
Coca-Cola á Íslandi framleiðir breiða vörulínu og hefur þegar dregið umtalsvert úr sykurnotkun  í vörulínu sinni, eða um 15% frá 2010. „Við höfum lagt mikla vinnu í að þróa vörumerki á borð við Topp og Hámark, sem stuðla að heilbrigðari lífsstíl, auk þess að bjóða sífellt upp á betri sykurlausa valkosti í vinsælum gosdrykkjum,” segir Carlos. „Við munum setja aukinn kraft í að þróa sykurskerta- og sykurlausa valkosti, sem og að bjóða upp á minni umbúðir fyrir sykraða drykki. Við viljum að neytandinn hafi val. Sykur er ekki alslæmur, sé hans neytt í hóflegu magni.“

Forstjóri Coca-Cola á Íslandi segir nauðsynlegt fyrir nútímafyrirtæki að koma til móts við þarfir neytenda og fylgja jafnframt öflugri sjálfbærnistefnu. „Fyrirtæki á borð við okkar hafa gríðarleg áhrif á nærumhverfið sem og umhverfið allt. Saman getum við áorkað gríðarlega miklu og því skora ég á félaga mína í matvælaiðnaði að sýna viljann í verki og skuldbinda sig líka til að minnka sykur í sinni framleiðslu og auðvelda neytendum að lifa heilbrigðum lífsstíl. Saman getum við getum við svo sannarlega eflt lífsgæði fólks.“