Vífilfell hf. verður Coca-Cola European Partners Ísland ehf.

Vífilfell hf. verður Coca-Cola European Partners Ísland ehf.
28. nóvember 2016

Frá og með deginum í dag breytist nafn Vífilfells hf. í Coca-Cola European Partners Ísland ehf. Breytingarinnar verður helst vart á stöðum eins og á bréfsefnum og í opinberum gögnum en mun engin áhrif hafa á daglega starfsemi fyrirtækisins. Þar sem eingöngu er um nafnabreytingu að ræða mun Coca-Cola European Partners Ísland ehf. halda sömu kennitölu og VSK-númeri og verður áfram  íslenskur lögaðili sem fylgir íslenskum lögum og reglugerðum og greiðir að sjálfsögðu alla sína skatta og skyldur á Íslandi.

Forsaga nafnabreytingarinnar er sú að þann 28. maí síðastliðinn var Coca-Cola European Partners plc (CCEP) stofnað eftir sameiningu Coca-Cola Enterprises Inc., Coca-Cola Iberian Partners SA og Coca-Cola Erfrischungsgetränke svo úr varð stærsta sjálfstæða framleiðslu-, dreifingar- og sölufyrirtæki Coca-Cola í heimi, sé miðað við tekjur. Þann 29. júlí keypti hið sameinaða fyrirtæki CCEP svo Vífilfell sem varð við það hluti af samsteypunni.

Hluti af yfirstandandi innleiðingarferli CCEP er að samræma nöfn fyrirtækjanna innan samsteypunnar en þau starfa á 13 mörkuðum. Fyrir lok þessa árs munu öll fyrirtæki undir hatti CCEP fá nafnið Coca-Cola European Partners auk þess sem við bætist nafn landsins sem fyrirtækið starfar í.

Drykkjarvörumarkaðurinn í Vestur-Evrópu fer vaxandi um þessar mundir og felur að mati fyrirtækisins í sér umtalsvert svigrúm til frekari vaxtar. Markmið Coca-Cola European Partners er að grípa þetta tækifæri og hjálpa dreifingaraðilum okkar og söluaðilum að vaxa í samvinnu við birgja og lykilsamstarfsaðila.