Þorrabjórinn tekur við af jólabjórnum

Þorrabjórinn tekur við af jólabjórnum
09. janúar 2015

Eftir að hafa drukkið jólabjórinn síðustu vikur er kominn tími til að breyta til og færa sig yfir í Þorrabjórinn sem er kominn í sölu  á börum og veitingahúsum og mun koma í ÁTVR á Bóndadaginn 23. janúar.

Þorraþræll er skemmtilegur bjór í breskum stíl sem kallast Extra special bitter. Í hann er notað sérstakt breskt Pale Ale malt, brekst ölger og East kent golding humlar sem gefa bjórnum einstakt yfirbragð (Bitter bjórar eru breskir Pale Ale, Einstök Pale Ale er hinsvegar amerískur Pale Ale). 

Extra special bitter bjórar eru yfirleitt frá 4.8% og yfir í styrkleika og fellur Þorraþræll akkúrat á neðri mörkin – 4.8% bjór. 

Þrátt fyrir heitið Extra special bitter er Þorraþræll ekki mjög beiskur heldur er jafnvægið gott og bjórinn mjög bragðgóður og sérstaklega góður með mat. Þorraþræll er fyrsti íslenski bitter bjórinn og telst vera fimmti bjórinn í „íslenskur Úrvals“ línunni frá Víking Ölgerð.

EiniberjaBock er sterkur lagerbjór (6.7%) ættaður frá Þýskalandi en kryddaður með einiberjum sem gefa honum hrikalega skemmtilegan karakter. Einiber eru strangt til tekið afbrigði af könglum og eru algeng hér á norðurhvelinu þar sem þau eru notuð sem krydd, sérstaklega með villibráð.

Í bruggferlinu koma einiberin í stað humla að nokkru leiti en grunnurinn að bjórnum er Munich malt sem gefur honum dökkan lit og sterkt maltbragð. Til að fá mýkri áferð og aukna fyllingu eru notaðir hafrar og hveitimalt á móti Munich maltinu. 

Samkvæmt sögunni þá notuðu víkingar fyrr á öldum einiber í mjöðinn sinn og því má segja að Baldur Bruggmeistari sé að halda á lofti heiðri Víkinganna með þessari nýjung í íslenskri bjórgerð.

EiniberjaBock tilheyrir „íslenskri Úrvals“ línunni hjá Víking Ölgerð og telst vera sá sjötti í röðinni.