Jólalest Coca-Cola ekur um borgina í 19. sinn

Jólalest Coca-Cola ekur um borgina í 19. sinn
12. desember 2014

Jólaskreyttir Coca-Cola trukkar Vífilfells, sem saman skipa jólalest Coca-Cola, halda á laugardaginn í sína árlegu ferð um höfuðborgarsvæðið. Jólalestin heldur af stað frá Stuðlahálsi kl. 16 og mun ferðast um helstu hverfi höfuðborgarsvæðisins en hápunktinum er náð um kl. 17 þegar hersingin ekur niður Laugaveginn.

Margar fjölskyldur hafa skapað sér þá hefð að fylgjast með Jólalestinni enda er þetta 19. árið sem hún ferðast um borgina. Áætlað er að á milli 10-15.000 manns fylgist með lestinni ár hvert og eru ung börn áberandi í þeim hópi enda þeir vandfundnir sem spenntari eru fyrir jólunum.

Tveir kílómetrar af ljósaseríum og eitt stærsta hljóðkerfi landsins
Jólalest Coca-Cola samanstendur af fimm stórum flutningabílum sem skreyttir eru með rúmlega tveimur kílómetrum af ljósaseríum. Það tekur starfsmenn Vífilfells yfir 10 klukkutíma að skreyta bílana og hjálpast allir að – en ferð jólalestarinnar skipar einnig fastan sess í jólaundirbúningi starfsmanna fyrirtækisins. Jólalestin spilar öll þekktustu jólalögin á ferð sinni um borgina og til þess að lögin fái örugglega að njóta sín er notað sama hljóðkerfi og á stórtónleikum í Laugardalshöll. 

Jólalestin, með sjálfan jólasveininn í fremsta bílnum, ekur rólega í lögreglufylgd og munu björgunarsveitarmenn ganga meðfram henni við stærstu verslunarkjarna og á Laugaveginum þar sem fólk safnast saman, til að draga úr slysahættu. Lögreglan vill beina því til fólks að sýna aðgát og koma ekki of nálægt trukkunum. 

Kemur við á Barnaspítala Hringsins
Jólalestin mun hvergi stoppa nema stuttlega í Spönginni í Grafarvogi um kl. 16:30 og við Smáralind upp úr kl. 18. Þá verður Jólalestin stöðvuð við Barnaspítala Hringsins þar sem jólasveinninn mun líta inn til barnanna og færa þeim gjafir.

Nánari leiðarlýsingu Jólalestarinnar er að finna á coke.is en þar er hægt að fylgjast með á korti hvar lestin er stödd hverju sinni, auk þess sem hægt er að horfa á beina útsendingu frá för hennar um bæinn. Þá er frekari upplýsingar um viðburðinn einnig að finna á Facebook undir heitinu „Coca-cola jólalestin 2014.“ Það á því eflaust ekki eftir að fara framhjá mörgum þegar Jólalestin er í nágrenninu og er fólk hvatt til að smella af henni myndum og merkja #jolalestin. Þeir sem taka skemmtilegustu myndirnar fá verðlaun.