Coke-flöskur með nöfnum fjölskyldumeðlima á jólakortinu

Coke-flöskur með nöfnum fjölskyldumeðlima á jólakortinu
03. desember 2014

Stór hluti af jólahefðum margra fjölskyldna er að senda út jólakort til vina og vandamanna og fylgja fjölskyldumyndir gjarnan með. Það er aftur á móti ekki alltaf hlaupið að því að ná öllum fjölskyldumeðlimunum saman í myndatöku eins og bóndi nokkur á Hornafirði fékk að kynnast. Hún dó þó ekki ráðalaus og stillti upp í nokkuð óhefðbundna „fjölskyldu“-myndatöku.

Arna Ósk Harðardóttir, bóndi á Hornafirði, var búin að reyna að koma öllum í fjölskyldunni saman í jólamyndatöku síðastliðin tvö ár svo hún gæti látið mynd fylgja með jólakortunum en án árangurs. Börnin þrjú og tengdabörnin búa í ólíkum landshlutum og koma sjaldnast öll saman nema á sjálfum jólunum – og þá er orðið of seint að taka mynd.

Arna Ósk byrjaði í vor að kaupa Coke-flöskur með nöfnum fjölskyldumeðlimanna átta. Flestar keypti hún á Hornafirði en einhverjar á Reyðarfirði og í Reykjavík. „Ég þurfti að umstafla dálítið í búðunum til að leita að réttu flöskunum og ég fór oft í fýluferðir. Fólk hefur eflaust haldið að ég væri starfsmaður í þessum verslunum. Ég reyndi að gramsa þegar enginn var nálægt mér en ég gerði það helst þegar ég var stödd í Reykjavík þar sem enginn þekkti mig og þar sem ég kippti mér ekki upp við ef ég var litin hornauga fyrir að róta í goskælinum.“

Hún keypti fyrstu flöskuna í maí en þá síðustu í október. „Þegar ég var komin með allar flöskurnar hugsaði ég, hvað á ég að gera við þetta? Þá fékk ég hugmyndina að því að stilla flöskunum upp í myndatöku. Við fjölskyldan hittumst eiginlega aldrei, við erum svo mörg og búum í ólíkum landshlutum og mig hefur í dálítinn tíma langað að senda fjölskyldumynd með jólakortunum. Ég hringdi í son minn í Reykjavík og bar hugmyndina undir hann og honum fannst hún frábær. Svo var myndin tekin í byrjun nóvember í Húsafelli,“ segir Arna Ósk.

Arna Ósk sendi okkur póst um þessa óhefðbundnu leið sem hún fór við fjölskyldumyndatökuna og ákváðum við í kjölfarið að senda henni smá jólaglaðning fyrir hugmyndina. Arna Ósk fékk gjöfina afhenta nýverið og sagði við það tilefni að hún hefði ekki verið að vonast eftir neinu slíku heldur vildi hún einfaldlega sýna hvernig hægt væri að nota Coke-flöskur með skemmtilegum hætti.