Vífilfell hættir framleiðslu á Diet Coke

Vífilfell hættir framleiðslu á Diet Coke
06. nóvember 2014

Framleiðslu á Diet Coke hefur verið hætt og má búast við að flöskurnar verði búnar á markaðnum eftir tvær vikur. Vífilfell hefur verið eina fyrirtækið í heiminum þar sem framleiddar hafa verið þrjár tegundir af sykurlausum Coke drykk, í flestum löndum eru aðeins tvær tegundir fáanlegar.

Fyrr á þessu ári var hætt framleiðslu á Diet Coke í tveggja lítra umbúðum og við það tækifæri var tilkynnt að 0,5 lítra flaskan sem var orðin sú eina á markaðnum, yrði tekin af markaði innan tíðar.

Vífilfell hefur framleitt Diet Coke síðan 1985. Á undanförnum árum hefur Coca-Cola hinsvegar kynnt til sögunar tvo nýja sykurlausa Coke- drykki, þá Coke Light og Coke Zero og munu þeir nú alfarið taka við af Diet Coke.

Vífilfell hefur reynt allt til að halda framleiðslunni áfram, en vegna minnkandi sölu er ekki lengur hægt að réttlæta áframhaldandi framleiðslu á drykknum.