Vífilfell sýknað af kæru Samkeppniseftirlitsins

Vífilfell sýknað af kæru Samkeppniseftirlitsins
10. október 2014

Hæstiréttur Íslands staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Samkeppniseftirlitsins og íslenska ríkisins gegn Vífilfelli.

Með dómnum staðfestir hæstiréttur að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála gegn Vífilfelli er felldur úr gildi og er Vífilfell sýknað í málinu.   Íslenska ríkinu ber því að endurgreiða Vífilfelli sekt sem fyrirtækið hafði greitt vegna málsins með dráttarvöxtum auk málskostnaðar.   

Vífilfell lýsir yfir ánægju sinni með dóm Hæstaréttar og fagnar því að niðurstaða sé loks fengin í málið, meira en 7 árum eftir að Samkeppniseftirlitið hóf að eigin frumkvæði athugun sína. 

Dómurinn er í samræmi við væntingar fyrirtækisins en ákvörðun Samkeppniseftirlitsins á sínum tíma kom okkur á óvart. Fyrirtækið hefur frá upphafi talið að málarekstur Samkeppniseftirlitsins sé ekki á rökum reistur og hefur það nú fengist staðfest.  

Vífilfell væntir þess að málið sé nú að baki og hlakkar til að geta tekið þátt í samkeppni á jafnræðisgrundvelli.