Bestu stuðningsmenn í heimi!

Bestu stuðningsmenn í heimi!
05. september 2014

Tólfan, stuðningsmannasveit landsliðsins, hefur tekið í notkun nýjan búning. Búningurinn er blár með hvítum og rauðum röndum, rétt eins og búningar íslensku knattspyrnulandsliðanna. Ólíkt þeim hins vegar þá skartar búningur Tólfunnar íslenska skjaldamerkinu á vinstra brjósti og merki tólfunnar, sem er skjöldur í fánalitunum með víkingahorn og númerinu 12, á hægra brjósti. Á baki treyjunnar er síðan auðvitað talan tólf, til merkis um að stuðningsmenn landsliðsins séu líkt og tólfti maðurinn á vellinum. 

Meðlimum sveitarinnar, sem stofnuð var fyrir sjö árum, hefur fjölgað hratt. Tólfan hyggst skapa enn betri liðs- og baráttuanda með því fjölga þeim sem íklæddir eru bláum treyjum á landsleikjum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu. Það er Henson fyrirtækið sem framleiðir búninginn en Carlsberg bjórframleiðandinn niðurgreiðir treyjukaup meðlima Tólfunnar og eru með stóra auglýsingu framan á nýju treyjunni. 

Hreiðar Þór Jónsson, markaðsstjóri bjórs hjá Vífilfelli skrifaði undir samninginn um nýju treyjuna fyrir hönd Carlsberg. „Margir þekkja frægt auglýsingaslagorð Carlsberg um hann sé líklega besti bjór í heimi og ég er ekkert feiminn við að lýsa því yfir að meðlimir tólfunnar séu líklega bestu stuðningsmenn í heimi,“ segir Hreiðar. „Þeir hafa átt stóran þátt í að skapa þá jákvæðu stemningu sem nú er í kringum landsliðið. Þeir spila og syngja allan leikinn og smita rosa góðum anda út frá sér og það eru allir sammála, hvort sem það er KSÍ, leikmennirnir sjálfir eða við sem komum á leiki að stemningin á Laugardalsvelli hafi batnað mikið frá því að Tólfan kom til,“ segir Hreiðar og bætir því við að Carlsberg ætli að hjálpa Tólfunni að koma söngtextum stuðningssöngvanna betur á framfæri þannig að allir á vellinum geti sungið með.

Meðlimir Tólfunnar vilja koma því á framfæri að Tólfan sé félag sem er öllum opið sem vilja taka þátt í gleðinni og styðja íslenska landsliðið. Tólfan hittist fyrir alla leiki á Ölveri í Glæsibæ gengur fylktu liði þaðan yfir á Laugardalsvöllinn. Tólfan hittist líka og horfir saman á útileikina  á Ölveri. Það er að segja þeir sem ekki fylgja liðinu út. 

Næsti leikur íslenska karlalandsliðsins er við Tyrki á Laugardalsvelli næstkomandi þriðjudag 9. september. Þetta er fyrsti leikurinn í undankeppninni fyrir Evrópumótið í knattspyrnu sem fram fer í Frakklandi sumarið 2016. Miðasala er í fullum gangi.