Framleiðslu á Fresca hætt

Framleiðslu á Fresca hætt
20. maí 2014

 

Framleiðslu á Fresca hætt

  • Minnkandi neysla þessa sögufræga gosdrykks með greipbragðinu
  • Einn elsti sykurlausi gosdrykkurinn á íslenskum markaði - kom fyrst á markað hér árið 1968
  • Tvær vikur u.þ.b. í að drykkurinn hverfi alveg úr hillum verslana

 

Vífilfell hefur ákveðið að hætta framleiðslu á gosdrykknum Fresca. Sala á drykknum hefur dregist saman undanfarin ár og er hlutdeild Fresca á gosdrykkjamarkaðnum nú aðeins 0,2%. Er það því mat fyrirtækisins að ekki borgi sig að halda framleiðslunni áfram.

Fresca er einn elsti sykurlausi drykkurinn á markaðnum en hann hefur verið framleiddur síðan árið 1968. Lengi vel var Fresca eini gosdrykkurinn í boði fyrir fólk sem hvorki gat né vildi drekka sykrað gos en framboð sykurlausra gosdrykkja er nú mjög mikið og Fresca á ekki jafn mikið upp á pallborðið og áður. Fresca hefur verið í hægri hnignun í ríflega tvo áratugi. Um aldamótin var reynt að rífa hann upp með stórri auglýsingaherferð, sem margir muna eflaust eftir, og tvöfaldaðist salan þá tímabundið. Síðan þá hefur neysla drykkjarins minnkað ár frá ári.

Jón Viðar Stefánsson: „Fresca var bylting þegar hann kom á markað. Þetta var fyrir tíma bæði TAB og Diet Coke og það er athyglisvert að sykurlaus gosdrykkur á þessum árum var fyrst og fremst vara fyrir sykursjúka. Í dag eru sykurlausir gosdrykkir og ýmsir vatnsdrykkir mun fyrirferðameiri í hillunum. Við vitum auðvitað að það verða einhverjir svekktir en þeir geta frestað vonbrigðunum aðeins með því að birgja sig vel upp en við eigum von á að það taki allt að tvær vikur áður en Fresca klárast í verslunum. Svo getum við bent þeim á að prófa Sprite Zero eða aðra drykki sem komið hafa í staðinn.“

 

---

Nánari upplýsingar veitir: Jón Viðar Stefánsson í s: 525-2500