COCA-COLA EUROPEAN PARTNERS TILKYNNA UM LOK YFIRTÖKU Á VÍFILFELLI

COCA-COLA EUROPEAN PARTNERS TILKYNNA UM LOK YFIRTÖKU Á VÍFILFELLI
29. júlí 2016

Coca-Cola European Partners (CCEP), stærsta sjálfstæða átöppunarfyrirtæki Coca-Cola í heiminum og leiðandi fyrirtæki á markaði með neytendavörur í Evrópu, tilkynnti í dag að það hefði gengið frá yfirtöku á Vífilfelli, sem framleiðir og dreifir Coca-Cola á Íslandi. CCEP er nú með starfsemi í 13 löndum í Vestur-Evrópu.

CCEP framleiðir, dreifir og markaðssetur nokkur af vinsælustu drykkjarvörumerkjum heims til yfir 300 milljón neytenda í Vestur-Evrópu. Hjá fyrirtækinu starfa um 25 þúsund manns og voru áætlaðar tekjur fyrir árið 2015 um 11 milljarðar evra. (eða 1.500 milljarðar kr.)

Vífilfell er eitt stærsta fyrirtæki á Íslandi í neytendavörum og er leiðandi á sviði gosdrykkja og bjórs.  Velta þess er um 10,8 milljarðar króna (78 milljónir evra).  Starfsemi fyrirtækisins nær til allra landshluta á Íslandi og  þjónustar Vífilfell um 2.300 fyrirtæki um land allt, með breiðu úrvali vinsælla vörumerkja á borð við Coca-Cola, Fanta, Sprite, Trópí, Toppur, Powerade, próteindrykkinn Hámark og bjórtegundirnar Víking og Thule.

Vífilfell var stofnað sem fjölskyldufyrirtæki árið 1942 af Birni Ólafssyni ráðherra. Höfuðstöðvar þess hafa alla tíð verið í Reykjavík og eru starfsmenn Vífilfells nú um 230 talsins.

John F. Brock, forstjóri CCEP: „Coca-Cola European Partners er alþjóðlegt fyrirtæki en fjárfestir, framleiðir, dreifir og ræður fólk til starfa í hverju landi fyrir sig. Við erum afar ánægð með að fá Ísland inn í rekstur okkar. Vífilfell og starfsmenn þess ráða yfir glæsilegu úrvali vörumerkja og búa yfir mikilli reynslu af því að koma breiðu úrvali af vörum í hendur neytenda í gegnum smásöluverslanir á Íslandi. Okkur er annt um efnahagslega og félagslega velferð þeirra landa sem við störfum í og við erum afar glöð með að verða hluti af íslensku samfélagi í gegnum Vífilfell.“  

Carlos Cruz, forstjóri CCEP á Íslandi og fyrrverandi forstjóri Vífilfells: „Við erum afar stolt af því að verða hluti af Coca-Cola European Partners fjölskyldunni og spennt yfir þeim tækifærum sem eru framundan. Nú þegar við erum hluti af stóru, sameinuðu fyrirtæki höfum við sveigjanleika, stærðarhagkvæmni og nýsköpunarkraft til að skapa vöxt og fá fleiri viðskiptavini og neytendur til að velja vörumerkin okkar.“

Um Coca-Cola European Partners (CCEP)

CCEP er leiðandi á sviði neytendavara í Evrópu og framleiðir, dreifir og markaðssetur breitt vöruval óáfengra drykkja. CCEP er jafnframt stærsta átöppunarfyrirtæki Coca-Cola í heiminum, m.v. veltu. CCEP þjónustar yfir 300 milljónir neytenda í Vestur-Evrópu, þ.á m. í Andorra, Belgíu, Frakklandi, Þýskalandi, Bretlandi, Íslandi, Lúxemborg, Mónakó, Hollandi, Noregi, Portúgal, Spáni og Svíþjóð. Fyrirtækið er skráð í kauphöllina í New York, á Euronext í Amsterdam og London og í spænskum kauphöllum undir einkennisstöfunum CCE.  Nánari upplýsingar um CCEP má finna á www.ccep.com eða á Twitter undir @CocaColaEP.    

COCA-COLA EUROPEAN PARTNERS TILKYNNA UM LOK YFIRTÖKU Á VÍFILFELLI