500 milljóna fjárfesting í hátæknivélum

500 milljóna fjárfesting í hátæknivélum
17. febrúar 2016

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, og Carlos Cruz, forstjóri Vífilfells, vígðu í gær formlega tvær nýjar Tetra Pak hátæknivélasamstæður í verksmiðju Vífilfells á Stuðlahálsi. Í vélunum fer fram pökkun og áfylling allra safa fyrirtækisins auk pökkunar á próteindrykknum Hámarki. Verkefnið er stærsta fjárfestingarverkefni Vífilfells á síðustu fimm árum og er heildarfjárfestingin tæplega 500 milljónir króna. Markmið eigenda fyrirtækisins er að verksmiðjan hér verði nægilega tæknileg og afkastamikil að hægt verði að sækja á erlenda markaði með íslensk vörumerki eins og Trópí, Svala og Hámark.  Hlutfall tekna vegna útflutnings hefur vaxið hratt síðustu ár. Aðallega á bjór sem bruggaður er á Akureyri.

Nýju vélarnar voru settar upp í lok síðasta árs og hafa verið í notkun síðustu vikurnar undir handleiðslu sérfræðinga frá The Coca-Cola Company og Tetrapak. Neytendur hafa þegar orðið varir við nýjar umbúðir en lögun pakkninganna hefur breyst og þeim fylgir ný tegund af röri sem þarf að draga í sundur.

Carlos Cruz, forstjóri Vífilfells, sagði við vígsluathöfnina í gær að nýju vélarnar gefi fyrirtækinu möguleika á aukinni vöruþróun ásamt möguleika á útflutningi. „Þær bjóða upp á mun betri og stöðugri gæði en áður og lengri líftíma á vörunum. Þannig að hver veit nema að við verðum farin að flytja út fleiri vörutegundir, til viðbótar við bjór, áður en langt um líður. Þá njóta íslenskir neytendur betri gæða framleiðslunnar. Þessi fjárfesting líka til merkis um að eigendum Vífilfells er full alvara með að framleiða áfram á Íslandi. Við teljum skilyrði hér jákvæð og erum ánægð með að höftin séu að losna.“

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sagði við sama tækifæri að það væri ánægjulegt að erlendir eigendur Vífilfells teldu umhverfið á Íslandi vænlegt til fjárfestinga. Hún sagðist þegar hafa prófað nýju umbúðirnar og var ánægð með að þær væru endurlokanlegar.  Þá fagnaði ráðherrann bættri orkunýtingu og umhverfisvænni umbúðum en orkunotkun við framleiðsluna minnkar umtalsvert við breytinguna auk þess sem rýrnun í framleiðslu minnkar um helming.

Nánar um verkefnið

Risavaxið verkefni – Yfir þúsund klukkustundir í undirbúningsvinnuUm veigamikið verkefni var að ræða þar sem nýju vélarnar leysa af hólmi þrjár eldri vélar sem fjarlægja þurfti úr framleiðslusal Vífilfells á Stuðlahálsi. Mikill undirbúningur átti sér þar að auki stað þar sem fyrirtækið þurfti að endurhanna tugi vöruliða í safa- og próteindrykkjum og má því segja að um sé að ræða eitt stærsta vöruþróunarverkefni sem fyrirtækið hefur tekið sér fyrir hendur á síðustu árum. Áætlað er að yfir 1.000 klukkutíma vinna hafi átt sér stað tengt verkefnastjórnun og undirbúningi.  Tryggja þurfti nægt framboð vara á markaði meðan verkefnið stóð yfir og reyndi því mikið á skipulagningu framleiðslu og lagers því framleiða þurfti stóran lager af vörum til að brúa bilið á meðan uppsetning stóð yfir og framleiðsla lá niðri.   

Umhverfisvænni og betri framleiðsla – Margfalt lengri líftímiEldri tegundir umbúða úr plasti auk eldri tegunda Tetra Pak umbúða viku fyrir nýjum tegundum umbúða og var því um að ræða breytingu á öllum vöruliðum í safa- og próteindrykkjum hjá Vífilfelli. Nýju vélarnar bjóða upp á mun betri og stöðugri gæði en áður og lengri líftíma. Nýting hráefna batnar til muna og með umtalsvert minni orkunotkun er allt framleiðsluferlið umhverfisvænna en áður.  Nýju vélarnar tryggja þar að auki betri endingartíma og gæði auk þess sem rýrnun í umbúðum og hráefni á að minnka umtalsvert.  

  • Bragð og innihald helst óbreytt.  Sama hráefni er notað í vörurnar og áður og helst því bragð og innihald óbreytt. 
  • Umhverfisvænar umbúðir. Innihaldið fer í mun þróaðri og umhverfisvænni umbúðir sem unnar eru úr pappír úr sjálfbærri skógrækt og eru umbúðirnar vottaðar þess efnis. 
  • Endurlokanlegar umbúðir.  Allar fjölskylduumbúðir eru endurlokanlegar sem tryggir betri gæði í ísskáp eftir að varan hefur verið opnuð. 
  • Lengra geymsluþol. Innihaldið helst ferskt lengur og haldast bragðgæði þau sömu.  Líftími safa sem áður voru í plastumbúðum fer úr 6 vikum í 6 mánuði og þær vörur sem áður voru í Tetrapak umbúðum hafa 6-9 mánaða geymslutíma.  
  • Áfram gerilsneydd vara.  Algengur misskilningur er að ávaxtasafi í plastflöskum sé ekki gerilsneyddur.  Varan verður áfram gerilsneydd enda tryggir það gæðin og endingartíma.
  • Rofin kælikeðja ekki vandamál lengur. Svokölluð tandurpökkun (aseptic packaging) sér til þess að ekki er þörf á kælidreifingu eða kældum lagerum og því er um sparnað að ræða í aðfangakeðjunni. 

Í nýju vélunum verða framleiddar safavörur undir hinum íslensku vörumerkjum Trópí og Svali, bæði einstaklings- og fjölskyldupakkningar. Trópí er mest seldi hreini ávaxtasafi landsins og Svali er leiðandi í ávaxtadrykkjum. Að auki framleiðir Vífilfell próteindrykki undir vörumerkinu Hámark í þessum nýju vélum.  

90 daga framkvæmdir í kappi við tímannramkvæmdir hófust í lok september við að taka niður gömlu vélarnar og að gera framleiðslusalinn tilbúinn fyrir nýju vélarnar. Vífilfell naut þekkingar og krafta tuga innlendra iðnaðarmanna í þessari vegferð auk vinnu og ráðgjafar íslenskra verkfræði- og arkitektastofa við hönnun og verkefnastjórnun. Í október og nóvember naut Vífilfell leiðsagnar og verkefnisstjórnar 19 sérfræðinga frá Tetrapak auk tæknimanna Vífilfells við uppsetningu nýju framleiðslulínanna.  Sérfræðingar Tetrapak dvöldu hér á landi í 60 daga til að tryggja að framleiðsla gæti hafist sem fyrst. Fyrstu kassarnir af söfum og próteindrykkjum fóru að rúlla af færiböndunum í fyrstu viku desembermánaðar og hafa nýju umbúðirnar jöfnum skrefum verið kynntar á markaði síðustu daga og vikur.  

Starfsmanna- og öryggismál í fyrirrúmiVífilfell er með ISO vottun í öryggis- og umhverfisstjórnun og leggur fyrirtækið mikla áherslu á öryggi starfsmanna og verktaka. Þetta stóra verkefni kláraðist slysalaust.  

Á framleiðslusviði Vífilfells í Reykjavík starfa að jafnaði tæplega 50 manns (í heild starfa um 200 manns hjá fyrirtækinu) auk þess sem starfsemin skapar fjölda starfa í vöruhúsi, dreifingu og í sölu- og markaðsmálum auk yfirstjórnar. Óbein margföldunaráhrif slíkrar innlendar framleiðslu í tæknigreinum og verslun eru umtalsverð og þá sérstaklega í tengslum við svo umfangsmikið verkefni. 

Hér fyrir neðan má svo sjá nýju línuna hjá Svala, Trópí og Hámarki

      

500 milljóna fjárfesting í hátæknivélum